top of page
nonnioghalla

Strandtaska

mánudagur 28. ágúst 2023


Það hefur lengi verið á mínum langa verkefnalista að prjóna eða hekla mér strandtösku, svona sem rúmar t.d. handklæði, bók og sólarvörn og þetta helsta sem slíkum ferðalögum fylgir. Þar sem konan er á leið í sólina innan skamms ákvað ég loksins að láta verða af því að gera mér slíka tösku. Ég hafði upphaflega hugsað mér að gera hana úr svona raffia efni sem eru náttúrulegar bast-trefjar að því ég best veit. Ég mundi að ég hafði séð þannig vöndla í föndurbúðum hér í gamla daga, en þegar ég fór að leita hafði ég ekki árangur sem erfiði. Niðurstaðan var að panta mér svona pappírsband - ef svo má kalla það - á hobbii.dk Það voru ótal litir í boði en ég ákvað að velja mér þennan mokkabrúna lit. Ég keypti tvær dokkur en hver dokka er 130-135 metrar að lengd.


Ég fitjaði upp 56 lykkjur á 6 mm. hringprjón og prjónaði garðaprjón fram- og tilbaka. Þegar ég var komin með 30 garða þorði ég ekki annað en að láta gott heita og fara beint í að prjóna botninn. Ég hafði jú bara keypt tvær dokkur og vildi ekki verða uppiskroppa með efnið þegar stutt væri eftir af verkinu. Ég hefði sennilega komist eins og tveim görðum lengra en ákvað að láta staðar numið þarna. Það kom svo í ljós að það teygist töluvert á þessu svo stærðin varð góð á töskunni.

Ekki get ég sagt að þetta band sé auðvelt í prjóni en samt svolítið skemmtilegt :)

En semsagt, þegar kom að því að prjóna botninn þá felldi ég af 6 lykkjur í byjun umferðar í hvorri hlið þannig að eftir voru þá 44 lykkjur sem mynduðu botninn. Hann prjónaði ég þar til hann mældist tvisvar sinnum málið á lykkjunum 6 sem ég felldi af. Þá jók ég aftur út 6 lykkjur í enda umferðar á hvorri hlið.

Hér má sjá hvar ég er hálfnuð með verkið og eins og sjá má er ennþá nokkuð eftir af "bandinu". Hornin sem myndast við að fellt er af eru svo saumuð saman og mynda botninn á töskunni. Hliðarnar eru svo auðvitað saumaðar saman líka. Upphaflega stóð til að prjóna líka böndin en svo mundi ég að ég á til þykk leðurbönd í metravís sem tilvalin væru í höldin á töskuna. Ég hafði höldin meters löng hvort og gataði fjögur göt með töng á hvorn enda til að festa þau við töskuna. Ég var strax ákveðin í að

gefa verkinu meira líf með því að sauma böndin á með litríku bandi: gulu, rauðu eða skærbláu ! Niðurstaðan var að nota það sem hendi var næst, sem var polyestertvinni. Tvinnan notaði ég sextánfaldan, þ.e. átta þræði sem ég þræddi nálina með og braut svo tvöfalda. Þegar höldin voru komin á kom mér í hug að hafa svona hliðarbönd eins og eru á hinni frægu "Neverfull" tösku frá Louis Vuitton en þau eru notuð til að þrengja töskuopið þegar maður vill. Hliðarböndin voru skorin úr sama efni og höldin, en ég hafði þau 50 cm. og með eins festingum. Til að herða að gerði ég 9 cm. búta sem ég braut beggja vegna að miðju og gataði á sitt hvorum enda og sitt hvoru megin við miðjuna. Þetta stykki verður að vera nokkuð þröngt þannig að böndin haldi sér þar sem þau eru stillt. Þetta tókst

bara ljómandi vel og böndin eru ekkert að renna til og það er gott að geta þrengt opið á töskunni að vild. Ég ákvað líka að útbúa skrautbönd með kúlum til að skreyta gripinn svolítið.


Og svona lítur hún þá út ! en ég á þó eftir að sauma í hana vatnshelt fóður því mér skilst að þetta efni þoli ekki bleytu mjög vel :)

Svo er bara að athuga hvort allt kemst fyrir í Töskunni!

Og jú - allt kemst fyrir: stórt baðhandklæði, bókin góða, sólvörn og gleraugu ásamt vatnsbrúsa og hér er hún komina á öxlina og ferðbúin til framandi landa :)





41 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page