Þegar ég var unglingur var ég alltaf að skapa eitthvað, þar á meðal úr prjóni. Ekki var alltaf hægt að stökkva út í næstu búð og fjárfesta í dýru garni svo oft varð úr að eitthvað ódýrt band varð fyrir valinu. Eitt sinn ákvað ég að prjóna mér peysu úr öllu því afgangsbandi sem fyrirfannst á heimilinu og tíndi til hvern einasta spotta sem ég fann, en móðir mín saumaði og prjónaði flestöll föt á okkur sex systkinin svo það var allskonar garn sem ég tíndi saman. Ég prjónaði peysuna með garðaprjóni og lét garðana snúa lóðrétt á fram- og bakstykki. Var jafnframt dugleg að skipta um band til að litbrigðin yrðu sem allra mest. Útkoman var nett klikkuð og frágangurinn sennilega ekki til fyrirmyndar. Stutt er frá því að segja, að á heimilinu fékk peysan viðurnefnið "Vetrarhjálpin". Því miður á ég ekki mynd af umræddri flík en hún kom ósjálfrátt upp í hugann þegar ég byrjaði á þeirri peysu sem hér verður nú gerð að umfjöllunarefni:
Upphafið er það að ég fór og keypti eina átta liti af nýja Fjallalopanum frá Ístex með það fyrir augum að prjóna hneppta peysu með mörgum einföldum munsturbekkjum. Prjónastærðin var valin 3,5 og 4 mm. Og þá var hafist handa og munsturbekkir bara prjónaðir af fingrum fram og litavalið handahófskennt. Þegar búið var að prjóna um það bil 20 cm. af verkinu ákvað ég að segja stopp, enda engan vegin sátt við útkomuna.
Nú voru góð ráð dýr, því fátt veit ég verra en að setja til hliðar nýkeypt garn sem ég sé ekki fram á að nota. Ég fór því að prufa mig áfram og eftir nokkur prufustykki rak ég augun í 9 mm. hringprjón og ákvað að bæta við plötulopa sem ég á alltaf til í einhverjum litum. Ég ákvað að nota þrjá liti sem mér fannst einna ljótastir í safninu mínu; dökkgrænan, ljósgrænana og ferskjubleikan.
Hugsaði mér jafnframt gott til glóðarinnar að klára bara þessa liti og þyrfti þá ekki að hafa þá lengur fyrir augum ! Eftir á að hyggja hefði ég betur valið fleiri liti í lopanum, því ég endaði með að þurfa að kaupa eina plötu til viðbótar af bæði dökkgrænum og ferskjubleikum og endað því með meira afgangs af þeim litum en áður en ég byrjaði :)
Ég prjónaði stoffið á prjóna nr. 7 og notaði svona garðastroff (eins og ég kalla það) til þess að það drægi sig ekki mikið saman. Ég hóf verkið á dökkgrænum Plötulopa með blágrænum Fjallalopa - ljómandi samsetning að mínum smekk.
Síðan ákvað ég að ég myndi - handahófskennt - skipta út til skiptis litum í Plötulopanum og Fjallalopanum. Þ.e. ekki skipta út báðum í einu og ekki bara við mót umferða, heldur hér og þar í verkinu. Við það fengjust fram fleiri litasamsetningar og litbrigði. Þar sem þessi peysa skyldi prjónuð í hálfrökkri við sjónvarpið var hvort eð er ekkert hægt að spá of mikið í því. Miðað við að vera með þrjá liti í Plötulopanum og átta liti í Fjallalopanum kom það mér á óvart hversu mikil heildarmynd varð á endanum á flíkinni. Sennilega snýst það um það að hafa litina í Plötulopanum þannig að þeir falli vel saman, en gaman væri að gera tilraun með ólíkari liti.
Það var aldrei í boði að fara að ganga frá endum að loknu þessu verki enda yrði það til þess að æra óstöðugan ! Þess í stað sleit ég annan þráðinn frá og skildi eftir svona 15 - 17 cm. Prjónaði svo bara nýjan þráð við þannig að nokkrar lykkjur voru prjónaðar með þreföldum þræði. Örlítill endi, 1 - 1,5 cm., var því skilinn eftir á röngunni og leyft að þæfast með ullinni við notkun og þvotta. En engin hætta á að eitthvað raknaði upp. Það að hafa þrefaldan þráð sums staðar jók bara enn frekar á óregluna en gerði það að sama skapi mikilvægt að skipta ekki um þráð alltaf á sama stað. Þetta var bara skemmtilegt verkefni og ég var snögg að prjóna bolinn upp að handvegum. Þegar verkið hófst hafði ég hug á að hafa ermar ísettar en nennti svo ekki að prjóna berustykkin fram- og til baka svo sígild laskaúrtaka varð fyrir valinu (já, ég veit upp á mig skömmina - ekki mjög metnaðarfullt). Á endanum var ég þó bara sátt við það val.
Þá tók við ermaprjónið og ég tók ákvörðun um að byrja og enda ermina á svipaðan hátt og bolinn, en þess utan hafði ég hann ekki til hliðsjónar. Notaði samt svona "sama takt" í prjóninu hvað varðar fjölda umferða með hverjum lit, eða svona þar um bil. Útkoman varð samt að mínu mati alveg frambærileg. Þegar kom að síðari erminni valdi ég að prjóna hana með svipuðum hætti og þá fyrri, án þess þó að telja umferðir eða kafa nákvæmlega ofan í litasamsetningarnar. Markmiðið bara að ná svona heildarsvip á báðar ermarnar. Svo var þá bara að prjóna laskann upp með hefðbundnum hætti og enda svo stroffið í hálsinn með sömu litum og neðst á bol og ermum :)
Mæli með þessari aðferð til að nýta afgangsgarn !
Svo er bara að byrja á annarri svo bandið klárist :)
Ekki er hægt að gefa nákvæma uppskrift af svona peysu, en grunnuppskrift sem hægt er að styðjast við kemur vonandi inn fyrr en síðar.
コメント