Það er ennþá eftir afgangur af bandinu sem ég prjónaði síðustu peysu úr, svo það er tilvalið að skella í eina litríka krakkavettlinga !

Og enn er afgangur !
Eins og ég hef áður sett hér á blað, eru ákveðin líkindi með þessu bandi og íslensku ullinni. Ég ákvað því að reyna fyrir mér með að blanda þessu tvennu saman. Þar sem ég átti hér tvær dokkur af hvítum plötulopa varð niðurstaðan að fitja upp á tvíbanda barnapeysu sem í grunninn væri hvít en með "danska" ullarbandinu í munsturlit. Sjáum hvað gerist og hvernig það kemur út. Ég byrja líka á hálsmálinu á þessari peysu og prjóna hana niður, þar sem ég er ekki viss hvað garnið dugar. Mér sýnist strax að þetta geti bara lofað góðu. "Danska" ullin prjónast ágætlega með íslenska plötulopanum tvöföldum og gefur loforð um fallega litríkt munstur,

án þess að eiga eftir óteljandi enda að ganga frá í lokinn ! Munstrið hanna ég bara jafnóðum og prjónað er og þarf því að hlaupa endalaust í tölvuna til að uppfæra. En ég hef nú bara gott af því :)
Þá er berustykkið klárt og ég búin að setja ermalykkjur á hjálparband, sem er reyndar rafmagnsvír í þessu tilviki ! Mér finnst mislita garnið reyndar koma ljómandi vel út í tiltölulega einföldu munstrinu! Ég hugsaði ekkert fyrirfram um það hvernig ég vildi láta litina raðast niður, byrjaði bara á endanum sem laus var. Enn þá er aðeins eftir af litaða bandinu - alla vega alveg nóg til að gera bekk á húfu í stíl við peysuna.

Svo er bara að halda áfram með bol og ermar :)
Nú er peysan tilbúin en smá frágangur eftir svo ég ætla að bíða með mynd af henni þar til allt er klárt. Byrjaði á húfu í stíl núna í morgunsárið með góðan tebolla við hendina. Þar sem mér var litið niður á náttsloppinn minn gat ég ekki annað en brosað, því hann er í nákvæmlega sömu litum og
peysan og húfan ! Svona er lífið fullt af skemmtilegum tilviljunum.

Mánudagur 31. júlí 2023
Húfan líka tilbúin. Ég ákvað að leyfa bara litunum að flæða að sjálfu sér og var ekkert að spá í að byrja á einhverjum ákveðnum lit enda ekki mikið eftir af litaða bandinu þegar hér er komið sögu. Munstrið teiknaði ég með hálfvegis speglun en hún er ekki til staðar í litaröðuninni og kom það mér skemmtilega á óvart að það gengi upp. Þegar húfan var til átti ég bara örlítið eftir af munsturlitnum svo mér datt í hug að gera svona gamaldags garndúsk og nota bara alveg upp litaða bandið. Tilbúnir loðdúskar hafa að mestu tekið yfir í dag enda ótal kostir sem þeim fylgja. Til dæmis eru þeir oftast miklu léttari en þessir heimagerðu og auk þess auðvelt að fjarlægja þá við þvott. En hér að neðan má sjá þá báða og auk þess peysuna og húfuna saman.
Kveðjur þangað til næst :)



Comments