Ég hef ekki gert mikið af því að prjóna á ungabörn en hef töluvert prjónað á enn minni "verur" eða brúður og finnst það býsna skemmtilegt. Bæði er, að flíkurnar eru svo litlar að fljótlegt og skemmtilegt er að vinna þær, og svo hitt, að þá er tilvalið að nýta upp allskonar afganga sem falla til við prjón á stærri flíkum. Svo er þá líka leyfilegt að blanda saman allskonar garni og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín til fulls. Svo skreyti ég fötin gjarnan með perlum, slaufum og ýmsu sem ég á til og finnst passa við. Fallegt og vel prjónað sett af dúkkufötum er líka frábær gjöf sem glatt hefur marga litla brúðumömmuna til dæmis á afmælisdegi eða á jólum. Á sumum mynunum hér að neðan eru einnig lítil teygjuarmbönd á "mömmuna"sem ég hef búið til og látið fylgja með.
Brúðan mín heitir Bíbí, en nafnið er komið til af því að hún er á stærð við Baby Born brúðu (BB). Þegar er komin út uppskrift af einu setti af fötum á Bíbí, eða uppskriftin "Bíbí fer í leikskóla" og samanstendur hún af peysu, buxum, húfu og sokkum og er svona grunnupskrift sem hægt er að spinna útfrá. Hér eru myndir af settinu í tveimur litasamsetningum:
Annað settið er prjónað í bleikum og brúnum lit og
hitt í blágrænum og brúnum. Bæði settin eru prjónuð
úr afgöngum af aran-garni, þessu í stóru
dokkunum sem fást svo víða.
Innan skamms, eða allra næstu daga, kemur svo út uppskrift af setti þar sem Bíbí á afmæli og klæðist af því tilefni bleikum og hvítum kjól og peysu í stíl.
Hér fyrir neðan má svo sjá sýnishorn af fleiri dúkkufötum sem ég hef prjónað á þessa litlu elsku mína :)
Hlakka svo til að sýna ykkur uppskrift af afmæliskjól Bíbíar og kanski sitthvað fleira í þeim dúr :)
Comments