top of page

Byrjað á garninu

nonnioghalla

Updated: Jul 29, 2023

Stundum finnst mér gaman að velja garnið fyrst og finna svo út úr því hvað ég ætla að prjóna úr því. Um daginn var ég að skoða garn á netinu og ákvað að panta þetta mislita ullarband frá www.hobbii.dk , en það er auðvelt að panta þar og varan er afgreidd fljótt og vel.

Það voru sennilega litbrigðin í garninu sem urðu þess valdandi að ég valdi það. Bandið minnti mig strax svolítið á íslenska lopann (sem ég er reyndar mjög hrifin af). Örlítið misgróft en heldur þjálla og mýkra en Álafosslopinn. Mér sýndist best að nota 5 mm. prjóna í stroffið og 6 mm. í bolinn.

Þar sem ég vissi ekkert hvernig peysu mig langaði að prjóna ákvað ég að byrja á stroffi í hálsmáli og prjóna mig niður á við. Það hentar einmitt vel þegar ekki er hægt að hendast út í búð eftir garni ef vantar meira.

Mér finnst fallegast að prjóna bara slétt prjón í svona mislitu garni og niðurstaðan var að hafa berustykkið hringlaga, þ.e. með jafnri útaukningu. Fljótlega kom í ljós að litaaskiptin urðu heldur örari en ég hélt fyrst, en það er líka bara skemmtilegt að vera alltaf að sjá nýja liti birtast á prjóninum og verður ekki eins leiðigjarnt að prjóna slétt.

Garnið er í 100 g. dokkum, með u.þ.b. 160 m. lengd í hverri dokku. Ég pantaði 5 dokkur svo ég held að ég prjóni niður fyrir handvegi, taki þá upp lykkjur fyrir ermarnar og prjóni þær fram. Þá get ég látið það ráðast af garninu sem eftir er hve peysan verður síð. Hugmyndin er þó að hafa hana frekar stutta - svona yfir skyrtu eða kjól. Þegar ermaprjónið tekur við kemur í ljós að litaskiptin verða auðvitað allt önnur þar sem færri lykkjur eru á prjónunum. Flæðið verður meira og litaskil ógreinilegri.

Ermarnar verða þar af leiðandi öðruvísi en bolurinn ef prjónað er úr sjálfmunstrandi bandi og vitaskuld smekksatriði hvað mönnum finnst um það. Svo er það málið þegar önnur ermin er tilbúin. Hvað skal þá gera? Er viturlegt að reyna að finna byrjun á garninu þannig að báðar ermarnar munstri sig eins eða er kanski alveg eins gott að láta hendingu ráða ?

Já, ég held bara að ég velji síðari kostinn, enda vandasamt að finna nákvæmlega sama stað á bandinu og hin ermin byrjaði á.

Sjáum til - nú ef mér finnst það klaufalegt, þá er ekkert annað að gera en rekja upp :)

Jæja, þá eru ermarnar tilbúnar og þó að þær hafi ekki munstrað sig eins er ég ekkert ósátt við þær svona. Svo þá er næst að klára bolinn. Ég held ég haldi mínu striki og hafi peysuna frekar stutta þó hún sé þetta þykk og nóg sé eftir af bandinu en þegar þarna er komið á ég eftir tæplega eina og hálfa dokku. Ég sé fyrir mér að í þessa peysu sé líka alveg eins hægt að nota tvöfaldan plötulopa eða Álafosslopa. Íslenska ullin stendur jú alltaf fyrir sínu !


Og þá er flíkin tilbúin ! Ég hélt mig við þá ákvörðun að hafa hana stutta og jók út áður en ég prjónaði stroffið að neðan til að það myndi ekki draga peysuna saman neðst.









250 views2 comments

Recent Posts

See All

2 Comments


Margret Juliusdottir
Margret Juliusdottir
Jul 23, 2023

Sæl, gaman að fylgjast með prjóninu með danska garninu, kemur virkilega flott út, verður hægt að kaupa uppskriftina hjá þér ? kveðja Margrét Júlíusdóttir

Like
nonnioghalla
Jul 24, 2023
Replying to

Kærar þakkir Margrét. Já, uppskriftin kemur út í vikunni.

Like

PrjónPrjón

Furulundur 15 H, Akureyri

+354 6955369

©2019 Halla Einarsdóttir. Proudly created with Wix.com

  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn
  • Facebook
bottom of page