top of page

Beðið eftir nýju bandi.

nonnioghalla

Updated: Aug 3, 2023

Miðvikudagur 2. ágúst 2023.


Báðar peysurnar sem ég sýndi ykkur hér að neðan; "Freydís" og "Lillý" hafa fengið góðar viðtökur og ein af mörgum spurningum sem ég hef fengið er hvernig ég viti hvernig litirnir raðast niður? Svarið við því er einfalt: Ég veit það eiginlega ekki fyrirfram - það ræðst af því hvar í bandinu maður byrjar og hver lykkjufjöldinn er á prjónunum. Þannig má greinilega sjá að bolurinn á þeirri fyrri verður meira bara eins og röndóttur þar sem lykkjurnar eru mjög margar, meðan barnapeysan munstrar sig með meira flæði. Svo verða ermarnar á fullorðinspeysunni allt öðruvísi, þ.e. litirnir flæða ennþá meira og ná yfir fleiri umferðir þangað til skiptir alveg yfir í annan lit. Þið getið skoðað þetta í myndunum sem fylgja tveimur síðustu færslum.

Ég hlakka til að sjá hvernig ykkar "Lillýar" munu líta út !


Nú er ég búin að panta meira af þessu sama litskipta bandi - aðra liti - og bíð spennt eftir að fara í frekari tilraunir með það :)

En þessa 4-6 daga sem það tekur póstinn að færa mér nýja sendingu ætla ég að nýta til að prjóna eina al-íslenska lopapeysu, þó ekki í sauðalitunum. Nota tvöfaldan plötulopa og 6 mm. prjóna og byrja að ofan.


Fimmtudagur 3. ágúst 2023


Verkinu miðar bara vel þó að lítill tími gefist til prjónaskapar, enda konan að byggja hús meðfram öðrum verkum ! Munsturbekkur á berustykki er klár og ermalykkjur komnar á rafmagnsvír sem ég held bara að ég venji mig á að nota hér eftir. Svo ætla ég að prjóna bolinn aðeins lengra niður og skipta þá yfir í ermarnar áður en ég klára hann. Það er reyndar eitt sem ég er oft spurð um og það er hver ávinningurinn sé af því að byrja peysuprjón ofan frá og prjóna niður. Ég á ekki til neitt einhlítt svar við því enda sjálf alin upp við það að flíkur almennt séu prjónaðar neðan frá og upp. Svo er það jú þannig að allir hlutir hafa sína kosti og galla. Hvað kostina varðar, þá finnst mér stundum (sem prjónahönnuður) auðveldara að byrja verkið ofan frá ef ég er ekki fyrirfram búin að teikna munstur og ákveða stærð og lögun flíkurinnar. Það er líka auðveldara að ráða sídd og ermalengd ef þessi aðferð er viðhöfð, en ég held því fram að þetta sé svona eins og Cheriosið - bara bæði betra. Og svo er þetta bara einstaklingsbundið og sem betur fer erum við ekki öll eins !

Svo megið þið endilega skrifa ykkar álit á því sem ég er að gera, hérna að neðan. Alltaf gott - og reyndar nauðsynlegt - að fá álit og ábendingar :)


 
 
 

Comments


PrjónPrjón

Furulundur 15 H, Akureyri

+354 6955369

©2019 Halla Einarsdóttir. Proudly created with Wix.com

  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn
  • Facebook
bottom of page