top of page
nonnioghalla

Þríleiknum lokað

Það sem mér hefur fundist gaman að prjóna þessar litríku peysur ! Svo fljótprjónaðar og frábært að ganga á afgangana sem stöðugt hlaðast upp. En nú er mál að linni og fara að snúa sér að nýjum verkefnum sem endalaust krauma í höfðinu á mér. Fyrst þarf þó að huga að útgáfu grunnuppskriftar sem hentar í svona afgangaprjón - nú eða eftir atvikum - ekki prjónað úr afgöngum, en eins og ég hef áður nefnt er nánast ógerningur að gera uppskrift að þessum litaskiptum eins og voru í síðustu tveimur peysunum. Þess í stað er komið að því að henda boltanum til ykkar til að finna ykkar eigin útgáfu, en til þess er einmitt gott að hafa grunnuppskrift til að styðjast við hvað varðar lykkjufjölda og þess háttar. Og nú er hún tilbúin og fékk nafnið "Nían" þar sem prjónið var svo gróft.


Engin stöðug skipti á bandi eru í þessari, heldur prjónað úr sömu blöndunni allan tímann. Í peysuna notaði ég tvær tegundir af bandi auk einfalds Plötulopa, en lopinn gefur svo mikla fyllingu í svona grófu prjóni án þess að verða óþarflega þykkur. Prjónastærðin er sú sama og í fyrri peysunum tveimur; 7 mm. í stroffið og 9 mm. í meginprjónið. Prjónfestan kom nákvæmlega eins út og í blöndu af Plötu- og Fjallalopa.

Ég var strax ákveðin í að nota lit í plötulopanum sem mér finnst ákaflega fallegur og hef notað mikið áður, en það er Blúsblár nr. 2022, sem kemur sérlega vel út við gallabuxur eða -pils. Með það fyrir augum að fá meiri hreyfingu í prjónlesið með Plötulopanum, vildi ég fá eitthvað litaskipt band og án þess að flækja málið eitthvað valdi ég fíngert, sjálfmunstrandi sokkaband frá Hjertegarn sem heitir einfaldlega Sock 4 og er 75 % ull og 25 % polyester til styrkingar. Fyrir valinu varð ljós grunnur með grænum og brúnum tónum, en ég hefði alveg getað valið hvaða lit sem var í því bandi. Plötulopinn tekur mestu fyllinguna og verður ríkjandi litur. Til að auka í grófleikann og styrkja enn frekar notaði ég svo beislitaðan Alpakka fylgiþráð frá Sandnesgarn sem ég átti til heima.









Þegar maður velur að prjóna flík úr sjálfmunstrandi eða litaskiptu bandi eins og Sock 4 verður að hafa í huga að ermar og bolur getur hæglega fengið á sig ólíka ásýnd þar sem lykkjufjöldinn er langt frá því sá sami, sbr. umfjöllun mína á blogginu hér fyrr; https://manage.wix.com/dashboard/df0fe79c-129a-4a70-bc72-25de11d475d7/blog/f916e0a4-4c78-4e5e-97bd-7ce2204c5b2a/edit

Það getur því verið ráðlegt að velja frekar band þar sem litaskiptin eru ör, því þá ber minna á þessu. Ég var vel meðvituð um þetta þegar ég hóf verkið og sýnist útkoman vera vel ásættanleg; ermarnar bera með sér aðeins breiðari rendur en bolurinn án þess að endilega verði eftir því tekið. Niðurstöðuna verður samt auðvitað hver að meta fyrir sig ! Hér að neðan er mynd af bolnum.



Svo nú er um að gera fyrir ykkur lesendur að setja ykkur í stellingar og leyfa huganum að fara á flug. Ég mæli með að gera prjónfestuprufur til að sjá hvort uppskriftin hentar því garni sem valið er og blandað saman, en um að gera að vera óhræddur og jafnvel örlítið kærulaus :)


91 view0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page