Ég elska mohair !
- nonnioghalla
- Mar 21
- 3 min read
Ást mín á mohair garni hefur vart farið framhjá neinum og sennilega er ég nú þegar búin að fylla kvótann af mohairuppskriftum á vefsíðunni minni !
Lengi vel var mér ekkert sérlega vel við þessa garntegund. Fannst hún prjónast ójafnt og illa en þegar maður finnur sátt í því er ekki aftur snúið, því fátt er eins kósý og fiðurlétt og mjúk mohairpeysa. Svo eru þær oftast nær svona heilsárs peysur; hlýjar á vetrum með jafnvel skyrtu undir, en svalar á sumardögum yfir einfaldan hlýrabol. Og ég tala nú ekki um hversu vel þær henta á ferðalögum (sem er önnur ástríða mín) enda pakkast þær afar létt og fer ekkert fyrir þeim. Hér að neðan gefur að líta smá umfjöllun um þessa ástríðu mína en er þó ógetið um allar þær uppskriftir þar sem ég hef notað mohair band sem fyllingu með öðru, til dæmis með Plötulopa en það tvennt er einmitt fullkomin blanda að mínu mati.

Mín allra fyrsta mohairpeysa og sú allra vinsælasta var "Íris", prjónuð úr einföldu Silk Mohair frá Sandnes garn. Ég var reyndar búin að prjóna fjórar eða fimm þannig peysur áður en ég lét til leiðast að birta uppskriftina og þá þegar búin að gefa uppskrift til nokkurra vel valinna samstarfsaðila dótturinnar - enda hún búin að klæðast sinni í þó nokkurn tíma. Uppskriftin er einföld; laus peysa með laskaúrtöku, prjónuð neðan frá og upp. Hálsmálið er frjálslegt og ekki er prjónuð upphækkun á baki. Einungis um 3 dokkur af bandinu fóru í stærð Medium, enda nálægt 290 metrar í hverri dokku.
"Uppskriftin "Sirí" kom fljótt á eftir "Írisi", en það er einmitt nafnið Íris skrifað aftur á bak, enda peysan nú prjónuð ofan frá og niður, en ég fæ einmitt reglulega fyrirspurnir um uppskriftir prjónaðar með þeim hætti. Að öðru leyti eru peysurnar eins.
Fleiri peysur prjónaði ég úr þessu ágæta bandi, eins og til að mynda "Helgu", sem er svona stutt peysa með 3/4 ermum og einföldu gataprjóni. Peysa sem tilvalið er að nota yfir skyrtur eða kjóla.


Því miður er Silk Mohair frá Sandnes garn ekki lengur framleitt, en það eru fjölmargar tegundir af bandi og garnblöndum sem mögulegt er að nota í þess stað og um að gera að spyrja starfsfólk garnverslana um eitthvað til að nota í staðinn. Sjálf hef ég notað tvöfalt Silk Mohair frá Iceweargarn í þessar uppskriftir með ágætis árangri, en það er umtalsvert fínna en það norska og passar því að prjóna það tvöfalt. Peysan "Jenný" er einmitt prjónuð úr því bandi tvöföldu og ég legg ekki meira á ykkur en það, að ég ákvað að vera bara sjálf módelið þar, hahaha ....

Sandnesgarn framleiðir líka Tynn Silk Mohair og er það ennþá í framleiðslu. Persónulega finnst mér það heldur fínt til að prjóna einfalt, en notaði það tvöfalt í peysu sem fékk nafnið "Löng helgi", enda var flíkin sú prjónuð á einni langri helgi. Í hana valdi ég skærgrænan lit sem örugglega er ekki allra, en nóg af öðrum fallegum litum í boði í því bandi sem og öðru slik mohair garni í sama grófleika !
Strax eftir að ég hafði lokið við að prjóna dömupeysuna ákvað ég að prjóna eins peysu í barnastærðum

og fékk sú uppskrift nafnið "Bekkjar-partý". Hana prjónaði ég á hálfu númeri minna af prjónum til að hún yrði ekki jafn gisin og dömuútfærslan.

Ertir þetta færði ég mig aðeins upp á skaftið - það er að segja um grófleika-því einmitt þarna skömmu síðar uppgötvaði ég miklu grófara mohair. Að vísu ekki með silki blönduðu í, en þar var komið bandið "Ballerina Chunky Mohair" einnig frá Sandnes Garn. Úr því prjónaði ég tvær peysur í mohair-safnið; peysuna "Marmaris", sem prjónuð var með hringlaga berustykki og því næst kom uppskriftin "Luxor" sem prjónuð var með laska ermum. Báðar uppskriftirnar eru prjónaðar ofan frá og niður. Síðar átti ég eftir að uppgötva algjörlega sambærilegt band, eða garnið "Ingenua" frá Katia sem er til í alveg svakalega flottum litum - að mér finnst :) - en það má einmitt finna hér; Katia - Ingenua – Föndra . Nöfn þessara síðastnefndu uppskrifta kunna að hljóma skringilega, en tilurð þeirra varð með þeim hætti að ég var einmitt stödd í Marmaris í Tyrklandi þegar ég hannaði og prjónaði þá fyrri og hins vegar á feðalagi nálægt Luxor í Egyptalandi þegar sú síðari varð til.


Bình luận